Afhjúpun minnisvarða um Vilhjálm Einarsson

 • Skoða sem PDF skjal

 

Þann 27. nóvember n.k. verða 60 ár liðin frá því Vilhjálmur Einarsson stökk 16.25 metra í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melborne í Ástralíu.  Þetta stökk var nýtt Ólympíumet, sem stóð í tvo klukkutíma en þá bætti Brasilíumaðurinn Ferreira Da Silva það með stökki sínu upp á 16,35 metra í fjórðu tilraun. Vilhjálmur endaði þar með í öðru sæti og varð fyrsti Íslendingurinn til að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikum. Þetta var frábær frammistaða hjá Vilhjálmi og er hann eini íslenski einstaklingurinn sem hefur náð öðru sæti í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikum.

Af þessu tilefni hefur verið reistur minnisvarði um þetta glæsilega afrek Vilhjálms á flötinni fyrir framan Vilhjálmsvöll.  Minnisvarðinn sýnir í fullri stærð lengd stökksins 16.25 metrar og ber hann  heitið „Silfurstökkið“. 

Afhjúpun minnisvarðans fer fram með athöfn laugardaginn 5. nóvember kl. 15.00 við Hettuna á Egilsstöðum.

Minnisvarðinn er reistur að frumkvæði Íþróttafélagsins Hattar og Fljótsdalshéraðs.  Verkið er útfært af Vilhjálmi í samvinnu við MSV og VHE. Eftirtalin fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök styrktu verkefnið:

Fljótsdalshérað, Íþróttafélagið Höttur, MSV stál & vélar, VHE vélaverkstæði, Rotarý á Egilsstöðum, Hitaveita Egilsstaða og Fella, Efla verkfræðistofa, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Betra bak, Brúnás innréttingar, Vaskur, Keiluhöllin, Hamborgarafabrikkan, MVA, Islingua, Jónsmenn, PES vefum og hönnum, Alcoa, Ungmenna og íþróttasamband Austurlands, Ungmennafélag Íslands, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands.

Nánari upplýsingar veitir Davíð Þór Sigurðarson, formaður Hattar í síma 843 7785.

Tilkynningar

 • Landsbankinn framlengir samning sinn við Hött

  Landsbankinn og Íþróttafélagið Höttur hafa ákveðið að framlengja samningi sínum um 1 ár. Núverandi samningur hefur verið í gildi síðastliðin 3 ár.

  Báðir aðilar samningsins eru mjög ánægðir með samstarfið. Samningurinn tekur til deilda félagsins sem bera upp unglinga og barnastarf.

   
 • Flugfélag Íslands gerir styrktarsamning við Hött

  Flugfélag Íslands hefur gert styrktarsamning við Íþróttafélagið Hött til þriggja ára. Samningurinn mun renna styrkari stoðum undir starfsemi Hattar en félagið heldur úti mörgum flokkum sem krefjast ferðalaga innanlands. Samningurinn mun því nýtast félaginu vel en ferðakostnaður er einn stærsti útgjaldaliður margra deilda félagsins.

  Flugfélag Íslands er því komið í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa á undanförnum árum gert langtímasamninga við félagið og með því tryggt öruggari rekstur hinna ýmsu deilda félagsins en í dag eru starfandi 8 deildir innan félagsins. Samningurinn er gerður við aðalstjórn félagsins sem mun síðan vinna frekar með samninginn innan félagsins.

  Það voru Davíð Þór Sigurðarson, formaður Hattar og Ingi Þór Guðmundsson, sölu og markaðsstjóri Flugfélag Íslands sem undirrituðu samninginn fyrir hönd félaganna tveggja.

   
You are here