13 réttir og 4,2 milljónir í getraunaleik Hattar

 • Skoða sem PDF skjal

Hjá íþróttafélaginu Hetti hefur verið haldið úti skipulögðu getraunastarfi í rúmlega 11 ár þar sem velunnarar Hattar mæta í Hettuna á laugardagsmorgnum, fá sér kaffi, kökur og reyna fyrir sér í getraunum.

Haldið er úti 20 liða meistaradeild þar sem einstaklingar eða hópar standa að baki hverju liði og berjast um meistaratitilinn á hverju ári. Fyrst og fremst eru menn að keppa að því að vinna félaganna en einnig styðja við bakið á knattspyrnudeild Hattar. Einnig er haldið úti minni deildarkeppnum þar sem menn spila í styttri tíma og vinna vinninga frá fyrirtækjum á svæðinu.

Þau tíðindi urðu um helgina að eitt af gömlu góðu liðunum sem haldið hafa úti liði í mörg ár náði 13 réttum og fékk fyrir það rúmlega 4,2 milljónir í sinn vasa. Er þetta stærsti vinningur sem hefur komið tl þessa í getraunaleiknum.

Sigurliðið hefur haldið í sömu getraunamerkin í rúmlega 7 ár og breytir aldrei út af vananum hvað það varðar og því má segja að þolinmæðin sé dyggð í þessu tilfelli. Segja má að þetta sé ekki tilviljun þar sem liðið hefur spilað gríðarlega vel í ár og situr á toppi meistaradeildarinnar með 8 stiga forskot. Liðið hefur einnig unnið 1 af 3 deildakeppnum sem spilaðar eru í ár. Liðið hefur aftur á móti ekki alltaf verið í þessari stöðu en á síðasta tímabili endaði liðið í botninum og 4 réttir á seðlinum ekkert óalgengt. Liðið endaði þá með 17 þúsund krónur í vinninga fyrir allt tímabilið.

Eftir hverja helgi eru getraunatíðindi gefin út með helstu upplýsingum og skotum skotið á þau lið sem eiga það skilið.

Vinningshlutfall deildarinnar hefur verið í kringum 20% til 25% en eftir þennan vinning er það 205%.

Nánari upplýsingar má sjá í getraunatíðindum fyrir viku 9 hér að neðan.

 

Attachments:
FileLýsingFile size
Download this file (Leikvika-9.pdf)Leikvika-9.pdf 119 Kb

Tilkynningar

 • Landsbankinn framlengir samning sinn við Hött

  Landsbankinn og Íþróttafélagið Höttur hafa ákveðið að framlengja samningi sínum um 1 ár. Núverandi samningur hefur verið í gildi síðastliðin 3 ár.

  Báðir aðilar samningsins eru mjög ánægðir með samstarfið. Samningurinn tekur til deilda félagsins sem bera upp unglinga og barnastarf.

   
 • Flugfélag Íslands gerir styrktarsamning við Hött

  Flugfélag Íslands hefur gert styrktarsamning við Íþróttafélagið Hött til þriggja ára. Samningurinn mun renna styrkari stoðum undir starfsemi Hattar en félagið heldur úti mörgum flokkum sem krefjast ferðalaga innanlands. Samningurinn mun því nýtast félaginu vel en ferðakostnaður er einn stærsti útgjaldaliður margra deilda félagsins.

  Flugfélag Íslands er því komið í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa á undanförnum árum gert langtímasamninga við félagið og með því tryggt öruggari rekstur hinna ýmsu deilda félagsins en í dag eru starfandi 8 deildir innan félagsins. Samningurinn er gerður við aðalstjórn félagsins sem mun síðan vinna frekar með samninginn innan félagsins.

  Það voru Davíð Þór Sigurðarson, formaður Hattar og Ingi Þór Guðmundsson, sölu og markaðsstjóri Flugfélag Íslands sem undirrituðu samninginn fyrir hönd félaganna tveggja.

   
You are here